

Eftir að ákveðið var að skrifa fræðibók fyrir börn skaut fljótlega upp þeirri hugmynd að aðalumfjöllunarefni bókarinnar yrðu hornsíli, með hornsíli í Vogatjörn í huga. Alls konar nálganir voru skoðaðar, m.a. hvort bókin ætti að vera í formi sögu þar sem fram kæmu persónur, hvort sem það væru börn sem skoðuðu lífríki tjarnarinnar eða að söguþráðurinn yrði settur fram sem ævintýri sem gerðust meðal hornsílanna sjálfra.
Í undirbúningsvinnu, áður en skrif bókarinnar hófust, voru greinar ýmissa fræðimanna, sem fjalla um barnabækur til notkunar í náttúrufræðikennslu með ungum börnum, skoðaðar. Einnig voru farnar ófáar ferðir á bókasöfn til að fá örlitla mynd af því hvers konar bækur væru nú þegar til staðar. Þó nokkuð fannst af myndabókum þar sem dýr komu við sögu en langflestar, ef ekki allar þeirra bóka, fjölluðu um dýrin sem persónur sem höfðu mannlega eiginleika. Þannig höfðu dýrin í bókunum samskipti sín á milli eins og við mannfólkið eða eins og í nokkrum tilfellum, þar sem myndirnar sýndu ákveðið dýr sem hafði alla mannlega eiginleika og lífshætti, en í sögutextanum var þess hvergi getið að persónan eða persónurnar væru ekki mennskar.
Flestar fræðibækur, sem gefnar hafa verið út á Íslandi og sérstaklega ætlaðar börnum, eru þýddar og í sumum tilfellum staðfærðar fyrir íslenskar aðstæður. Bókasafn Reykjanesbæjar (e.d.) heldur úti heimasíðu þar sem m.a. er að finna lista yfir útgefnar fræðibækur fyrir börn og unglinga allt aftur til ársins 2000. Á þessum lista má sjá alls konar bækur, meðal annars sjálfshjálparbækur ýmiss konar, matreiðslubækur og bækur um tónlist. Nokkrar bækur á listanum hafa náttúruna eða dýr í náttúrunni að umfjöllunarefni. Langflestar þeirra eru þýddar úr öðrum tungumálum og fjalla um framandi dýr eða dýr sem eru útdauð, svo sem risaeðlur. Þessar bækur eiga það einnig sameiginlegt að höfða meira til barna á grunnskólaaldri en ungra barna á leikskólaaldri. Allt þetta styrkti þá ákvörðun að útbúa bók með börn á leikskólaaldri í huga sem væri í senn fallega myndskreytt og fræðibók þar sem börnin gætu spreytt sig á að setja sig sjálf í spor hornsílanna. Þegar börn setja sig í spor hornsíla er von til að það auki áhuga þeirra og skilning. Byrjað var á að gera uppkast að texta bókarinnar. Þá voru útlínur mynda hverrar opnu rissaðar á pappír og síðan skannaðar inn í tölvu og fullunnar í myndvinnsluforriti. Textanum var að lokum bætt inn og reynt að hafa gott samspil á milli útlits texta og mynda.
Bókin Ef þú værir hornsíli… er skrifuð með það í huga að fræða börn um lífshætti hornsíla. Þrátt fyrir að bókin sé skrifuð með fjögurra til fimm ára leikskólabörn í huga getur hún og verkefnasafnið einnig nýst við kennslu yngri barna í grunnskóla.
Texti bókarinnar er settur fram á þann hátt að börnin geti sett sig í spor hornsíla. Þannig er titill bókarinnar til dæmis notaður til að tengja fræðilega umfjöllun við eitthvað sem börnin gætu þekkt úr eigin lífi. Sem dæmi um þetta má nefna umfjöllun um útlitseinkenni fullorðinna hornsíla en þar segir í textanum: „Ef þú værir hornsíli myndu foreldrar þínir líta svona út.“ Í framhaldi kemur svo útlitslýsingin.
Við lestur bókarinnar þurfa börnin að fá tækifæri til að spyrja spurninga og spjalla um það sem kemur upp í hugann við lesturinn. Þó svo að bókin sé stutt og með auðveldum texta er ekki þar með sagt að það þurfi að klára hana alla í einu. Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna er aðalumfjöllunarefnið hornsíli og lífshættir þeirra og er henni ætlað að hjálpa börnum að fræðast um þau. Í bókinni eru orð eða hugtök sem mjög líklega hljóma ekki kunnuglega fyrir mörg ung börn, svo sem hængur, hrygna og hrogn eða seiði. Samhliða þessu er ekkert því til fyrirstöðu að nota tækifærið til að fræðast um önnur dýr í náttúrunni. Í verkefnasafninu eru verkefni sem fjalla um önnur dýr, til að mynda verkefni sem gengur út á að skoða hugtök sem notuð eru yfir karldýr, kvendýr og ungviði mismunandi dýrategunda. Í verkefnasafninu er að finna ýmiss konar verkefni sem tengjast inn á öll námsvið leikskóla eins og þau birtast í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011.
Þó svo að margir tengi lestur bóka með börnum við inniveru er tilvalið vegna umfjöllunarefnis hennar að hafa hana með í vettvangsferðir að nærliggjandi tjörn og lesa eða skoða á vettvangi. Einnig er gott að hafa í huga að endurtaka lestur bókarinnar. Ung börn eru oft fljót að gleyma því sem þau heyra og því er gott að hafa í huga að endurtaka lestur bókarinnar jafnframt því að grípa hvert tækifæri til að koma að upplýsingum um viðfangsefnið. Þannig má til dæmis lesa aftur einstaka hluta bókarinnar til að skerpa á atriðum sem upp á vantar. Auk þess hafa börn oft gaman af því að heyra sömu söguna aftur og aftur.