Börn hafa frá unga aldri mikla þörf fyrir að kanna umhverfi sitt. Almennt er álitið að tengsl ungra barna við náttúruna sé mikilvægur þáttur í þroskaferli þeirra. Í Aðalnámskrá leikskóla (2011) kemur fram að námssvið leikskóla eigi að vera samþætt og samofin öllu starfi leikskólans en námssvið leikskóla eru: Læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi og sköpun og menning. Sjálfbærni og vísindi er það námssvið sem fjallar helst um náttúruna og aðrar greinar vísindanna. Í umfjöllun um námssviðið sjálfbærni og vísindi kemur m.a. fram mikilvægi þess að kenna börnum að bera virðingu fyrir náttúrunni og að ýta beri undir „forvitni, ígrundun og vangaveltur barna og hvetja þau til að spyrja spurninga og leita mismunandi lausna.“ (Aðalnámskrá leikskóla, 2011:44).
Wilson (2012) segir að leikur barna í náttúrulegu umhverfi sé börnum eðlislægari en leikur innandyra og gefi fjölbreyttari tækifæri til að efla hugmyndaflug barnsins. Hún segir að kennurum og foreldrum beri skylda til að sjá til þess að börn hafi tækifæri til að leika sér í náttúrulegu umhverfi. Aðferðir til hvetja börn til athugana og leiks í náttúrulegu umhverfi ættu ekki einungis að felast í því að sjá til þess að börnin hefðu ýmiskonar náttúrulegan efnivið heldur einnig að fá þau til að taka á sig hlutverk ýmissa lífvera í umhverfinu. Með smá hvatningu og/eða einföldu leikefni er auðvelt að fá fjögurra til fimm ára börn til að gleyma sér í ýmiskonar hlutverkaleik. Þó svo að börn velji oftar að vera persónur sem þau þekkja úr mannheimum, svo sem mamma, pabbi, lögga, kennari eða einhver ofurhetja er ekkert því til fyrirstöðu að þau taki sér hlutverk lífvera í umhverfinu eða dýra sem þau þekkja. Þó svo að almennt sé talið að þykjustuleikur barna eigi að vera sjálfsprottinn og laus við afskipti kennara er mikilvægt fyrir framgang leiksins að börnunum sé séð fyrir efnivið sem ýti undir leik þeirra og hugmyndaflug. Þannig væri t.d. hægt að beina hlutverkaleik barnanna í átt að dýraríkinu með því að gefa þeim kost á allskonar viðeigandi búningum og ýmiskonar leikefni sem nota mætti sem t.d. hreiður eða hvaðeina sem hægt er að nota í tengslum við híbýli dýra.
Í þessu samhengi mætti einnig hugsa sér að nota leikræna tjáningu og fá börn til að leika ýmis fyrirbæri í náttúrunni, svo sem lífsferil fiðrilda frá lirfustigi til fullþroskaðs einstaklings, búferlaflutningar eða hreiðurgerð svo eitthvað sé nefnt. Slík reynsla á náttúrufræðilegum ferlum getur spilað stórt hlutverk í því að hjálpa börnum að öðlast djúpan skilning á undrum náttúrunnar (Wilson 1997:3).
Rannsóknir hafa sýnt að bein tengsl eru á milli útiveru barna og bættrar heilsu þeirra bæði líkamlegrar og andlegrar. White R. (2004:2) vitnar almennt í rannsóknir tengdar ofvirkum börnum og börnum með hegðunarvandamál sem sýna að þessi börn eigi auðveldara með að læra úti í náttúrunni. Útivera þeirra dregur einnig úr þeim hegðunarvandamálum sem þau eiga við að stríða.
Rannsókn þar sem gerður var samanburður á hreyfiþroska fimm til sex ára barna á nokkrum leikskólum í Noregi. Annars vegar var um að ræða börn sem léku sér á útisvæði leikskólans og hins vegar börn sem fóru útfyrir leikskólalóðina. Þó nokkur munur var á milli hópanna en börnin sem höfði tækifæri til að fara útfyrir lóðina sýndi mun meiri árangur í bættum hreyfiþroska. Einnig hafði þessi hópur betra jafnvægi og samhæfingu (Fjörtoft, I., 2004: 38-39).
Áhyggjur manna eru þess efnis að börn hreyfa sig mun minna en foreldrar þeirra gerðu og nefna ýmis heilsufarsleg vandamál sem hafa aukist svo sem offita barna, astmi, ADHD og D-vítamínskortur. (McCurdy L.E., Winterbottom, K. E., Mehta, S.S. og Roberts, J.R., 2010). Í greininni er rýnt í rannsóknir sem greina frá vísbendingum um að hreyfing utandyra í náttúrulegu umhverfi geti stuðlað að bættri heilsu barna. Þar er lögð áhersla á nauðsyn þess að allir þeir sem starfa með börnum geri sér grein fyrir mikilvægi þess að börnum sé tryggt aðgengi að náttúrulegu umhverfi og að ýtt sé undir það að börnin séu virk (McCurdy L.E., o.fl., 2010).
McCurdy og félagar (2010) segja meðal annars frá rannsóknum þar sem athuguð voru viðbrögð barna sem greind höfðu verið með ADHD og ADD. Þar kom fram að eftir að hafa fengið að leika sér á náttúrulegum svæðum reglulega í ákveðinn tíma héldu börnin einbeitingu mun betur en þau höfðu áður gert (McCurdy o.fl. 2010:109).
Það að börn komist í nálægð við náttúruna er ekki einungis álitið vera gott fyrir börnin sjálf heldur er það ekki síst talið mikilvægt fyrir náttúruna. Margir fræðimenn telja að frumskilyrði þess að menn læri að bera virðingu fyrir náttúrunni er að fá að upplifa undur náttúrunnar af eigin raun (White, R. og Stoecklin L. V. 2008 og Wilson R. 2012).
White R. og Stoecklin L. V. (2008) benda á að ekki sé í góður kostur að upplýsa börn á leikskólaaldri um eyðingu ósonlagsins, eyðingu regnskóga og aukin góðurhúsaáhrif, svo eitthvað sé nefnt. Að minnsta kosti þarf að fara varlega og skoða vel hverskonar nálgun á viðfangsefnið er notuð. Algeng tilhneiging er að skoða þetta efni út frá sjónarhóli fullorðinna og því verði það of flókið til að börnin nái að skilja það nægilega vel. Það getur haft í för með sér að börnin fyllist annað hvort miklum kvíða eða hræðslu, jafnvel ofsahræðslu eða láti efni sem þetta varða sem vind um eyru þjóta (White, R. o.fl., 2008).
Börn eiga að hafa tækifæri til að vera úti í náttúrunni og fá að upplifa hana bæði á eigin forsendum sem og í samskipum við önnur börn, fjölskyldu eða kennara. Hlutverk hins fullorðna ætti að vera fólgið í því að skapa börnunum tækifæri til að fræðast um náttúruna sem og að nota náttúruna sem uppsprettu náms á öðrum sviðum. (Vaselinovska, Petrovska og Zivanovic, 2010:2246).
Heimildir
Aðalnámskrá leikskóla. 2011.
Fjørtoft, I. (2004). “Landscape as Playscape: The Effects of Natural Environments on Children’s Play and Motor Development.” Children, Youth and Environments 14(2), 21-44. Sótt á vef 19. desember 2012. Sækja grein.
McCurdy L.E., Winterbottom, K. E., Mehta, S.S. og Roberts, J.R. (2010). Using Nature and Outdoor Activity to Improve Children‘s Health. Current Problems in Pediatric and Adolescent Health Care 40(5), 102-117.
Veselinovska S.S., Petrovska. S. og Zivanovie J. (2010). How to help children understand and respect nature? Procedia. Social and Behaviour Sciences 2(2), 2244-2247.
Wilson, R. A. (2012). Nature and Young Children: Encouraging Creative Play and Learning in Natural Environments. Taylor & Francis. Kindle Edition.
White, R. og Stoecklin, L. V. (2008). Nurturing Children‘s Biophilia: Devolopmentally Appropriate Environmental Education for Young Children. Sótt á vef 18. janúar 2013. Sækja grein.
White, R. (2004). Young Children‘s Relationship with Nature: It‘s Importance to Children‘s Development & the Earth‘s Future.
Nýlegar athugasemdir