Bókmenntir í leikskólastarfi

Barnabækur eru ríkur þáttur í starfi leikskóla á Íslandi og hafa bæði menntunar- og menningarlegt gildi. Almennt er litið svo á að bækur séu ómissandi við örvun málþroska barna á leikskólaaldri. Með því að lesa fyrir ung börn öðlast þau aukinn orðaforða og læra mikið um mál og ritmál, mest ómeðvitað (Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, 2006:23). Þannig síast inn vitneskja sem er nauðsynleg forsenda læsis og undirstaða menntunar þeirra til framtíðar. Þó svo að hlutur málörvunar í gegnum bókmenntir sé mikilvægur eru einnig margir aðrir þættir sem vinna má með.

Barnabókmenntir hafa að geyma ýmiss konar fróðleik um lífið og tilveruna. Börn geta fundið þar hversdagslegan veruleika sem þau þekkja af eigin raun en einnig veruleika sem þau þekkja ekki eða eiga jafnvel ekki kost á að kynnast. Ef unnið er með fjölbreytt viðfangsefni barnabókanna getur það aukið þekkingu barnanna á heiminum og hjálpað þeim að öðlast sýn á heiminn frá margvíslegum sjónarhornum (Anna Þorbjörg, 2006:19).

Bækur geta þannig haft mikil áhrif á líf barna en þær geta bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif. Þess vegna er mikilvægt að vanda til verka þegar þær eru valdar og að bæði leikskólakennarar og uppalendur séu á varðbergi. Bækur, sem eru vel skrifaðar og geyma góðan boðskap, ættu að hafa jákvæð áhrif á börn, þ.e. hugsun þeirra og viðhorf. Þau þurfa að setja sig í spor annarra þegar þau lesa eða hlusta á sögu og fara þá að sjá heiminn út frá öðru sjónarhorni. Þau læra að heimurinn er ekki allur eins og að fólk býr við misjafnar aðstæður (Riley, 2006:180). Einnig geta barnabókmenntir ýtt undir ímyndunarafl barnanna og gefið þeim góðar hugmyndir sem skila sér í leik þeirra og hvetja þau til að kanna ýmislegt á eigin spýtur. Þannig eru barnabækur ef til vill ein mikilvægasta og skemmtilegasta uppspretta efnis fyrir börnin sem starfsfólk leikskóla getur nýtt í starfinu. Einnig er tiltölulega auðvelt að tengja vinnu með barnabækur öllum námssviðum leikskólans sem gerir þær í raun að nauðsynlegu námsgagni (Anna Þorbjörg, 2006:19).

Sandra Moser skrifar um notkun barnabóka við kennslu í ýmiss konar vísindum og tekur fram að barnabókmenntir gefi einstök tækifæri til að gera ýmis viðfangsefni aðlaðandi og áhugaverð fyrir ung börn. Þau eigi mun auðveldara með að tengjast viðfangsefninu ef þau geta samsamað sig persónum og/eða ef sögusviðið er kunnuglegt (Moser, 1994:139). Einnig geta börn fræðst um dýr sem erfitt eða ógjörningur er að kynnast á annan hátt (Pringle og Lamme, 2005:3–4).

Barnabækur geta einnig aðstoðað börn við að þróa með sér jákvæð viðhorf til náttúrunnar og verið fræðandi um ýmis fyrirbæri er tengjast henni. Wilson (2012:41–43) talar um það sem hún kallar á ensku pro-nature books. Þannig bækur skilgreinir hún sem bækur þar sem aðalpersónur sögunnar virða náttúruna og undur hennar. Einnig þurfa aðalpersónur að sýna náttúrunni samkennd í stað yfirráða. Hún bendir á að í mörgum vinsælum barnabókum eru dýr sýnd sem „vond“ og nefnir dæmi úr sögum sem margir þekkja, sögurnar um grísina þrjá og Rauðhettu og úlfinn. Í báðum þessum sögum er dregin upp neikvæð mynd af úlfum. Wilson telur að með slíkum sögum geti börnin þróað með sér rangar og óréttmætar hugmyndir um þessi dýr og að þær ýti jafnvel undir fordóma í garð náttúrunnar. Einnig kemur fram í umfjöllun hennar að mikilvægt sé að nota slíkar pro-nature bækur í vinnu með ungum börnum og bendir jafnframt á að það sé einnig nauðsynlegt að kennarar gefi börnum tíma í umræður um efni bókarinnar í stað þess að lesa bókina frá upphafi til enda á einu bretti.

Það sem kennarinn þarf að huga að þegar bækur eða bók er valin til kennslu er að efni hennar þarf vera þannig úr garði gert að það höfði til barnanna og veki áhuga þeirra á viðfangsefninu. Það er þó ekki nóg að innihaldið hafi skemmtanagildi fyrir börnin heldur þarf umfjöllunarefni bókarinnar að vera nálægt raunveruleikanum (Moser,1994:193; Pringle og Lamme, 2005:3–4).

Marriott (2002:177–178) greinir frá rannsókn þar sem skoðaðar voru 1074 myndabækur sem valdar voru af handahófi. Bækurnar voru ætlaðar umgum börnum og í þeim komu dýr við sögu. Flestar sögupersónurnar voru gæludýr, svo sem kettir og hundar, eða húsdýr, eins og kindur eða hænur. Mun minna var um að villt dýr væru í aðalhlutverki og þá sérstaklega stærri dýr eins og fílar og gíraffar. Í langflestum bókanna höfðu dýrin eiginleika sem minntu á manneskjur. Þannig höfðu aðalpersónur bókanna í flestum tilfellum nafn, ræddu við önnur dýr, bjuggu í húsum og gengu í skóla. Marriott telur að það að gefa dýrum mannlega eiginleika og/eða tilfinningar geti haft í för með sér að börnin fái ranga og oft óraunverulega sýn á dýr og nefnir sérstaklega dýr sem geta verið hættuleg börnum, svo sem hunda eða ljón. Þegar börnin þekkja ekki þessi dýr af öðru en sem talandi einstaklinga sem hafa tilfinningar sem líkjast þeirra eigin eiga þau erfiðara með að skilja hættuna við það að hlaupa að ókunnugum hundi og klappa honum. Þegar dýr eru persónugerð á slíkan hátt er einnig horft framhjá því að börnin fræðist um dýrin sjálf.

Heimildir

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir. (2006). Bók í hönd – Um barnabækur í leikskólastarfi. Í Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Kristján Jóhann Jónsson, Veturliði G. Óskarsson (Ritstj.), Hrafnaþing 3, 19-32. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Marriot, S. (2002). Red in Tooth and Claw? Images of Nature in Modern Picture Books. Children‘s Literature in Education. 33(3), 175-183.

Moser, S. (1994). Using Storybooks To Teach Science Themes. Reading Horizons,32(2),  138-150.

Pringle, R. M. Og Lamme L. L. (2005). Using Picture Storybooks to Support Young Children‘s Science Learning. Reading Horizons 46(1). Sótt á vef 6. febrúar 2013. Sækja grein.

Riley, J. (2006). Language and Literacy 3-7 Creative Approaches to Teaching. London: Sage Publications Ltd.

Wilson, R. A. (2012). Nature and Young Children: Encouraging Creative Play and Learning in Natural Environments. Taylor & Francis. Kindle Edition.